154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:16]
Horfa

Valgerður Árnadóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir þessi svör. Ég sé að við erum nokkurn veginn á sömu blaðsíðu hvað þetta varðar. Ég vildi endilega bæta því við inn í húsnæðismálaflokkinn að ríkisstjórnin hefur vissulega komið með þá lausn að veita fólki meira lán og ríkið á þá hluta í íbúð þess, en það er einungis fyrir húsnæði sem er glænýtt. Það húsnæði er jafnframt dýrara heldur en eldra húsnæði þannig að núna er ungt fólk sem er það heppið að geta farið inn á markaðinn að skuldsetja sig meira heldur en það myndi kannski gera ef það keypti ódýrara húsnæði sem er eldra, en það hefur ekki tök á því vegna þess að það er ekki með hærri útborgun. Í þessu umhverfi, þegar vaxtaumhverfið er að breytast og þessi hópur þarf að taka verðtryggð húsnæðislán og eignast enn þá minna í húsnæðinu, þá er þetta mjög bagalegt og jafnvel eitthvað sem þarf að skoða í þessum lögum svo að þau gildi fyrir annað en glænýtt húsnæði, sem er dýrt, ef við ætlum að horfa á unga fólkið og ungt fjölskyldufólk og hvernig því vegnar í lífinu.